Um höfund Barnaleikur.is, tilurð síðunnar og tilgang.

Ég heiti Svandís Sigurjónsdóttir og er þriggja barna móðir, skrifstofustarfsmaður og háskólanemi. Þessi síða er lokaverkefni mitt til BA prófs í Bókasafns- og upplýsingafræði frá Háskóla Íslands. Leiðbeinandi verkefnisins er Dr. Ágústa Pálsdóttir. Vörumerki síðunnar er teiknað af Lilju Katherine, yngstu dóttur minni.

Hugmyndin

Ég nýt þess mjög að ferðast um Ísland með fjölskyldunni minni. Við höfum þvælst hingað og þangað um landið með tjald eða fellihýsi og skapað okkur dásamlegar minningar. Ég hef þó oft rekið mig á að mér gengur erfiðlega að finna skemmtilega afþreyingu og útivist í nálægð við þann stað sem við tjölduðum á sem hentaði ungum börnum. Ég ákvað því að útbúa heimasíðu og safna á hana upplýsingum um hina ýmsu barnvænu afþreyingu og útivist fyrir markhópinn börn á aldrinum 1-12 ára og fjölskyldur þeirra. Vonandi auðveldar síðan þér að finna skemmtilega dægradvöl fyrir þig og þína.

Flokkar afþreyingar

Þeir flokkar sem ég hef valið að einbeita mér að eru eftirfarandi

  • Útileiksvæði
  • Söfn og sýningar
  • Húsdýragarðar og heimsóknir í sveit
  • Matsala “beint frá býli”
  • Náttúrulaugar
  • Fjöruferðir
  • Frisbígolf
  • Fótboltagolf
  • Minigolf

Upplýsingaöflun

Ég hef leitað fanga víða til að finna upplýsingar um skemmtilega og áhugaverða áfangastaði. Ég hef leitað á netinu, sent fyrirspurnir og beðið um ábendingar inni á facebook hópum sem ég er í og einnig hef ég sent tölvupóst á öll sveitarfélög á landinu og beðið þau að senda mér ábendingar um staði sem eiga við og eru innan þeirra umdæmis. Ef þú hefur ábendingu um fjölskylduvæna afþreyingu eða útivist þá máttu endilega senda mér tölvupóst eða nota ábendingarformið á síðunni.